föstudagur, desember 30, 2005

áramót

jæja... þá er maður búinn að taka smá bloggjólafrí, ekkert nema gott um það að segja.

Haugalandsmesterskapet i Rock (21.des) gekk bara nokkuð vel, allavega spiluðum við stóráfallalaust og höfðum gaman að. Náðum þó ekki verðlaunasæti enda áttum við aldrei séns í rokkhundana í 1. og 2. sæti, það var helst þriðja sætið sem við gátum gert okkur einhverjar vonir um... en svo varð semsagt ekki... en fylleríið eftirá olli sko engum vonbrigðum :)
Ólafur Arnar og Marí frænka hans voru svo frábær að kíkja á keppnina og djömmuðu með manni fram eftir morgni, virkilega gaman að því! Ólafur kom svo aftur á Karmøy í gær þar sem við skelltum okkur í nett partý. Gaman að sjá strákinn eftir rúmlega hálft ár :)

Eins og fyrr þá fékk maður fullt af flottum jólagjöfum, það klikkar ekki að hvert ár þá kemur það manni á óvart hvað maður fær mikið skemmtilegt!

Svo eru það áramótin á morgun... innbakaðar nautalundir... mmmmmm best í heimi. Maður er búinn að byrgja sig þokkalega vel með flugeldum og öli, enda fer það alveg stórvel saman.

Jæja... nú er það spilakvöld hjá ömmu, heil umferð í boltanum á morgun... verður tíundi deildarsigurinn í röð staðreynd?? ég tippa á já!

Gleðileg áramót

föstudagur, desember 23, 2005

Hei hå nå er det jul igjen

Gleðileg jól kæru vinir og vandamenn (maður ætti kannski bara að segja "hafið það gott yfir þriggja daga helgina"). Takk fyrir góðar stundir á liðnu ári, hlakka til að sjá ykkur öll á því nýja, sem ég spái að verði óvenjulega athyglisvert, afdrifaríkt, spennandi en þó umfram allt skemmtilegt!
Njótið stundanna með fjölskyldum og vinum yfir hátíðirnar

þriðjudagur, desember 20, 2005

Toppaðu myndatextann, 2. umferð

Það er komið að annarri umferð keppninnar en fyrsta umferð tókst svona líka ljómandi vel. Dómari annarrar umferðar er sigurvegari síðustu uferðar, Orri Smárason.
Sem fyrr þá birtist hér mynd og myndatexti (Orri nýtti ekki rétt sinn til að senda inn mynd) og þið skrifið ykkar myndatexta í kommentin.

Í dag var George Bush Bandaríkjaforseti gerður að dýrlingi. Ástæðan mun vera sú að á ljósmynd sem af honum var tekin á morgunverðarfundi hvíta hússins í gær sáust ljóspunktar sem saman mynduðu geislabaug yfir höfðinu á honum. "Aldrei hefur yfirvaldið sent okkur jafn skýr skilaboð um að það eigi að taka einhvern í tölu dýrlinga" sagði Benedikt páfi glaðbeittur á blaðamannafundi síðdegis í dag.

mánudagur, desember 19, 2005

Rokk-keppni

Jæja... 5 dagar í jól og maður varla byrjaður að spá í jólagjafir, held að maður ætti kannski að fara að huga að því. En það er ennþá styttra í miðvikudaginn en þá keppum við í hljómsveitinni Mockana í keppninni Haugalandsmesterskapet i Rokk fyrir framan 5-600 áhorfendur.
Við vorum svo heppnir að fá að vera síðastir á svið af þeim 11 böndum sem þarna spila og spilum við 2 lög, eitt frekar rólegt en hitt mun rokkaðara. Stefnan er tekin á eitt af þremur efstu sætunum, sem ætti að vera mögulegt ef við náum að skila þessu þokkalega frá okkur (erum með svo magnaðan bassaleikara sjáið þið til! :) Svo sjáum við bara til á miðvikudagskvöldið hvort drukkið verður til að fagna eða til að drekkja sorgunum :)
Geri mitt besta til að fá einhvern til að taka video af okkur.
Svo er nú Ólafur Arnar kominn til Noregs, ekki spurning um að maður verður að hitta á strákinn, enda er hann ekkert allt of langt í burtu.

jæja... farinn í eitthvað jólastúss... bæ

föstudagur, desember 16, 2005

Úrslit og reglur

Góðir hálsar, það er föstudagur og 8 dagar til jóla. Ef það er ekki tilefni til að fá sér bjór þá veit ég ekki hvað.

Fyrsta umferð "toppaðu myndatextan" gekk framar björtustu vonum og ferlega gaman hversu margir drengir (já, engin stúlka tók þátt! -vona að úr því verði bætt næst) komu með stórskemmtilegan myndatexta. Það er því ljóst að keppnin er komin til að vera, í bili allavega.
En þá kom smá babb í bátinn, ég hafði svo gaman að þessu mest öllu að það reyndist nær ómögulegt að dæma hver vann... Óskar kom þó með lausn á þessu vandamáli og verða reglurnar um úrslit eftirfarandi:
Sigurvegari hverrar umferðar verður dómari í þeirri næstu, dæmi: sigurvegari í fyrstu umferð mun kommenta, eigi síður en á þriðja degi frá myndbirtingu annarar umferðar hver sigurvegari umferðarinnar er, sá sigurvegari mun svo vera dómari í þeirri þriðju og svo koll af kolli. Sjái dómari sér ekki unnt að kveða upp úrskurð á tilsettum tíma fellur það í skaut burra.
Einfalt :)
(aukaregla: sigurvegari senda mynd ásamt myndatexta á saevarjokull@gmail.com sem verður þá mynd næstu umferðar)

En, þá er bara að krýna sigurvegara fyrstu umferðar, en það var Orri Smárason. Orri er því kominn með eitt stig í "toppaðu myndatextann" og dæmir næstu umferð.

Næsta mynd kemur fljótlega

Annars er bara... æ nei, nenni ekki að skrifa meira í dag, ætla bara að fá mér öl eins og heiðursmanni sæmir
Góða helgi

þriðjudagur, desember 13, 2005

Toppaðu myndatextann, 1. umferð

Það er komið að því að burrinn byrji með nýja keppni... hver man svosem ekki eftir tilvitnunarkeppninni frægu :) (þar sem úrslit voru reyndar aldrei kunngjörð sökum tossaskapar síðustjóra, en Ólafur Arnar trónaði á toppnum þegar keppnin dó)

Nýja keppnin gengur út á það að toppa myndatextann eða "Beat this caption" eins og einhverjir kannast eflaust við.

Leikreglur eru semsagt þær að ég set mynd inn á síðuna og undir myndinni er myndatexti. Lesendur nota svo hugmyndaflugið í að commenta betri myndartexta eða bara texta sem þeim finnst passa við myndina hvort sem það er á ensku eða íslensku. Besta kommentið verður svo valið.
Einfalt ekki satt

Svo er bara að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og skrifa eitthvað sniðugt... sjáum svo til hvort fyrsta umferðin verði nokkuð eina umferðin :)

"úps, gleymdi að maður á ekki að borða rúgbrauð áður en maður fer í geimbúninginn"

laugardagur, desember 10, 2005

Þá var gaman...

Fékk smá nostalgíukast í gömlu góðu teiknimyndunum og setti inn nokkur sýnishorn hérna... já og þemalögin :)
Þannig að nú getið þið greyin mín, sem þrælið ykkur út dag hvern í próflærdómi tekið ykkur smá pásu og hugsað aftur til gömlu góðu daganna þegar vinna og skóli var eitthvað sem maður hafði ekki allt of miklar áhyggjur af... hmmm... minnir á núverandi ástand hjá mér :)

Alli og Íkornarnir. Eitthvað svo hresst... og röddin svo frábær

Þemalag

Kærleiksbirnirnir. Efast um að ég hafi viðurkennt að fíla þá á sínum tíma, svo hefur maður nú líklega horft á þetta eins og versti laumuhommi... staraaaaaa

Þemalag

Snöggur og Snar. Sjiiit þeir voru skemmtilegir, og nintendo tölvuleikurinn líka, full auðveldur samt, einn af þeim sem maður kláraði í fyrstu tilraun, eins og ducktales, Super Mario 2 ofl.

Þemalag

Brakúla greifi. Hrikalega svalur... Nanna var samt flottust! Sem svo oft áður þá sá okkar besti talsetjari, Laddi, um allar raddir. Minnir að þetta hafi alltaf verið á föstudögum á stöð 2, öðrum hvorum meginn við "eruð þið mirkfælin"

Þemalag

Sögur úr andabæ. Obboslega skemmtilegir þættir... og ´theme´lagið eitthvað það besta sem gerist í teiknimyndabransanum... ógnardjarfar ævintýraendur úúú

Þemalag

Búrabyggð. Stórkostlega skemmtilegir þættir... voru á sunnudögum á RÚV. Sérstaklega gaman þegar þeir þurftu að fara út þar sem tröllin voru! Ekki séns að fara ekki í gott skap þegar maður hlustar á þemalagið!

Þemalag

HE-MAN. Prins Adam sjálfur, persónan sem ég dýrkaði og dáði... svo ekki sé nú talað um alla HE-MAN kallana sem maður átti. Enginn annar en master of the universe... stórkostlegt!!!

Þemalag

Jimbó. Klárlega hressasta þota í heimi!

Þemalag

Mask. Veit ekki hversu vinsælt þetta var á Íslandi, en þegar ég bjó í Noregi á sínum tíma þá var ég vitlaus í þetta!

Þemalag

Paddington. Sjitt hvað hann var svalur! Með marmilaðið alltaf... magnað

Þemalag

Pósturinn Páll. Pósturinn Páll, Pósturinn Páll, Pósturinn Páll og köturinn njáll...

Þemalag

Raggy Dolls. Þetta fannst mér alveg frábærlega skemmtilegt... af einhverjum ástæðum

Þemalag

Skófólkið. Shoe shoe shoe shoe people. Stórkostlegir þættir þar sem allir eru skór! Passið ykkur þegar þið hlustið á þemalagið, maður fær það gjörsamlega á heilann!!

Þemalag

Strumparnir. Standa alltaf fyrir sínu... einhvernveginn minnir mig að þeir tengjast klámi á Íslandi. Hafð ekki einhver tekið klám upp á strumpaspólu sem hann var með á leigu... æ man það ekki... En Kjartan var samt mest töff "Ég hata strumpa"


Superted. Hrikalega svalur bangsi!!!

Þemalag

Turtles. Hvað voru þessir ekki flottir maður!!! Donatello, Michaelangelo, Raphael og Donatello... ussss... glæsilegir

Þemalag

Thundercats. Thunder..Thunder...Thunder...Thundercats HOOOOOOOOOOOOOOO! Ég elskaði Thundercats... ekkert smá flottir, svo átti maður auðvitað fullt af Thundercats köllum, þeir voru með takka aftan á sem hreyfði á þeim hendurnar, mjög töff.

Þemalag

Jæja... þetta var nú skemmtilegt! Góða helgi :)

mánudagur, desember 05, 2005

So you think you can dance

Það var ferlega gaman að sjá hversu margir tóku prófið: Hvað veist þú um Sævar?, þetta var reyndar frekar erfitt þannig að góðar niðurstöður komu á óvart en það var nú samt töluvert af þeim, þótt allur gangur hafi nú verið á því.

En ég er ekki hér kominn til að tala um það sem jákvætt er... heldur ætla ég að sjálfsögðu að benda á hið neikvæða því það vita allir að til að byggja fólk upp þá á að hamra á því sem miður fer.
Það var nú allur gangur á því hvaða spurningar fólk var með rangar, merkilega margir héldu reyndar að ég myndi nenna að hlusta á Megas, sem er fráleitt. En hvað um það.
Ég setti inn eina spurningu í lokin sem átti að vera töluvert idiotproof, eitthvað sem allir vissu, svona til að hressa fólk við eftir slakt gengi.
Spurningin var: með hvaða liði heldur Sævar?
Það tókst nú samt tveimur yndislegum manneskjum að svara þeirri spurningu vitlaust sem er alveg magnað og fá Matthildur skvetta og Hugi frændi (sem bæði eru þekkt fyrir að hafa gríðarlega mikinn fótboltaáhuga) stórt og mikið hrós fyrir að þekkja mig ekki baun!! :)

Talandi um fótbolta...

Ferlega er nú gaman að vera Liverpool maður í dag!
-18 stig af 18 mögulegum í síðustu 6 deildarleikjum (og ekkert á leiðinni að hætta sigurgöngunni)
-komnir upp úr riðlinum í meistaradeildinni (enn einn meistaradeildarsigurinn nálgast :)
-Búnir að halda hreinu í sl. 8 leikjum eða síðan 25 september
-Crouch kominn á markalistann (nú verður ekki aftur snúið, watch out for the longest legs in the world)
-Kewell að verða sprækari og sprækari með hverjum leiknum
-Meiðslalistinn sjaldan verið jafn stuttur (ótrúlegt en satt)
-osfrv.

Já... lífið getur verið ljúft þótt það sé mánudagur!!

laugardagur, desember 03, 2005

góða helgin

hæ...
vildi bara óska ykkur góðrar helgar með því að deila með ykkur uppáhaldslaginu mínu þessa dagana og brjóta þannig flest öll lög í heiminum um höfundarétt o.þ.h. kjaftæði.
hægrismellið hér og veljið "save as"
verið nú á rassgatinu þessa helgina... próflestur er ekki afsökun!

fimmtudagur, desember 01, 2005

Tónleikar

Hvernig er það, fór enginn á Sigur Rós tónleikana? Ef jú, vinsamlegast bloggið eða kommentið um hvernig var á þeim! Ef nei, þá eruð þið hálfvitar.
Mikið var biturt að komast ekki á tónleikana á Íslandi og enn bitrara var að það var löngu uppselt þegar ég komst að því að þeir voru að spila hér í Noregi.
en...
mér til mikillar ánægju þá eru tónleikarnir á netinu á Sigur Rós síðunni.
Snilld!
En þegar ég sit hér og horfi á þá, þá langar mig bara ennþá meira að hafa séð þá live :(

mánudagur, nóvember 28, 2005

Dæmisaga úr nýjasta testamentinu (burra guðspjall)

Einu sinni fyrir nokkuð langa löngu var guð sem hét Guð. Honum þótti afskaplega vænt um skepnurnar sem hann hafði skapað fyrir ennþá lengra löngu og kölluðu sig manneskjur. Eitt helgarkvöldið sat Guð upp í himni sínum og horfði niður á sköpunarverk sitt, á manneskjugreyin sem höfðu tilbeðið hann dag og nótt í þúsundir ára ásamt því að færa honum fórnir sem kostuðu oftar en ekki mannslíf, ekki það að hann hafi þurft á þessum fórnum að halda, hann var jú guð og gat fengið allt sem hann vildi. En Guð er góður guð og veit að það er hugurinn sem gildir þegar kemur að fórnum og öðrum trúarathöfnum og nú skyldu skepnurnar verðlaunaðar fyrir dugnað sinn og trúrækni. Gjöf Guðs var að gera manninum kleift að finna upp og framleiða bjór og aðrar áfengisafurðir. Manneskjan var himinlifandi, aldrei áður höfðu partýin verið jafn skemmtileg og konurnar jafn auðveldar, jörðin, aðsetur manneskjunnar, var orðin paradís sem slóg aldingarðinum Eden ref fyrir rass.

Aldrei hafði mannkynið verið svo hamingjusamt, mjöðurinn flaut um allt og allir voru nett kenndir, alltaf. Þessi mikla sæla leiddi hins vegar til þess að fólk fór að leggja minni rækt við trú sína. Tíminn sem vanalega fór í morgunbænir fór í að staupa sig í rétta gírinn fyrir daginn, í staðin fyrir að fara með borðbæn þá fékk fólk sér fordrykk og hrunið var í það á kvöldbænartímum. Þetta gramdis Guði mjög í geði, ekki hefði honum grunað að elskulegu manneskjuverurnar sínar myndu breytast í þvílík skrímsli við að nota gjöfina sem hann hafði svo örlátlega gefið þeim. Eftir að hafa hugsað málið í dágóða stund ákvað Guð að taka til sinna ráða. Hann skipaði svo fyrir að því meira sem hver maður drekkur af miðinum hverju sinni því mun ömurlegra mun þeim manni líða daginn eftir. Þessi aðgerð hins reiða guðs leiddi til þess að áfengissjúkri manneskjunni leið ömurlega með tilheyrandi uppköstum og ógeði í kjölfar mikillar drykkju.

Í þynnkuveikindum sínum fór manneskjan að ákalla guð sinn í miklu mæli og hækkaði trúrækni hennar umtalsvert. Guð var mjög ánægður með þessa breytingu en fannst samt gríðarlega átakanlegt að horfa upp á skepnurnar sem hann elskaði svo mikið þjást svo gríðarlega því ekki voru manneskjugreyin nógu snjöll til að drekka minna af búsinu. Svo erfitt fannst Guði að horfa upp á þetta að það fór að bera á samviskubiti hjá honum. Þegar samviskubitið var farið að naga hinn almáttuga alvarlega þá ákvað hann að hann yrði að gera eitthvað til að lina þjáningar mannsins, en þó á þann hátt að trúræknin myndi ekki minnka mjög mikið. Nú voru góð ráð dýr. Eftir mikla umhugsun fékk hann snilldarhugmynd, hugmynd að gjöf til mannsins til að lina þjáningar hans. Guð gaf manneskjunni þynnkudrulluna.

Nú voru allir glaðir, maðurinn gat drukkið sig út úr kortinu og skemmt sér konunglega, vaknað svo daginn eftir og eytt töluverðum tíma í að líða ömurlega og ákalla guð sinn, taka svo þynnkudrulluna og líða töluvert betur á eftir... allir sáttir! Amen

úfffff.... þvílíka kjaftæðið
var b.t.w skrifað í átakanlegri þynnku

föstudagur, nóvember 25, 2005

Hélstu að þú vissir eitthvað um mig?

Hann Ólafur Arnar félagi minn og vinur gerði svona skemmtilegt quiz um sjálfan sig á síðunni sinni... þegar þessum dreng dettur eitthvað sniðugt í hug... þá hermi ég að sjálfsögðu eftir honum :)
Þannig að... smellið hér:
Hvað veist þú um Sævar?
og komist að því hvort þið þekkið mig nokkuð jafn vel og þið hélduð. Hvet sem flesta til að gera svona quiz líka... rosa gaman :)
Það er btw mjög aumt að svara þessu undir dulnefni.

Góða helgi og góða nótt góðir hálsar... hvar svo sem þið eruð múahahahha

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Hann á afmæl´í dag!

Í dag, þann tuttugasta og annan nóvember á burri afmæli... og er hvorki meira né minna en tveggja ára.

Síðan var stofnuð á miðju próflestrartímabili árið 2003 í þeirri von um að finna sér eitthvað að gera... eitthvað allt annað en að læra fyrir próf. Eitthvað sem flestir námsmenn þekkja.
Nafið burri... það kom algjörlega upp úr þurru enda breytti engu hversu asnalegt það var, það var hvort sem er ekki gert ráð fyrir því að skrifa meira en 2-3 færslur...

En í dag, 219 færslum seinna er burri orðinn tveggja ára og heimsfrægur. Það mætir enginn til vinnu án þess að hafa lesið burra, nema sá hinn sami ætlar að verða eins og hálfviti í kaffipásunni þegar allir eru að tala um síðustu burra skrifin.
Algengasti "Ice-braker´inn" er nú orðinn "lastu það sem stóð á burra í gær" og datt "það er fína veðrið" því niður í annað sætið.
burri er verðskuldað tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna 2005 í flokkunum Besti íslenski vefurinn, Besti einstaklingsvefurinn, Besti afþreyingarvefurinn og Besta viðmóts- og útlitshönnunin.

Það lesa allir burra, því burri er fyrir alla og óskar hann sjálfum sér innilega til hamingju með árin tvö. Húrra húrra húrraaaaa

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Ef eg væri ríkur... dararrararara


Keypti þennan seðil (stækkanlegt með því að smella á myndirnar) í Belgrad í sumar en hann er frá þeim tímum þegar verðbólgan í Júgóslavíu fór sem hæst og er þessi seðill í heimsmetabók Guinnes fyrir hæstu peningaupphæð prentaða á seðil.
Ekki leiðinlegt ef þessi seðill væri í gildi í dag... 500.000.000.000 kall, mætti nota það í ýmislegt, þótt það hafi nú ekki dugað fyrir meiru en nokkrum brauðhleifum hér í denn.

En að öðru...

Ef ykkur hefur einhverntíman dottið í hug að þið eyðið of miklum tíma fyrir framan sjónvarpið... tékkið þá á síðustu bloggfærsluna hjá þessum og ykkur mun aldrei líða þannig framar! :)
Þetta er semsagt mjög skemmtilegt blogg hjá Einari bróður, sem mætti reyndar alveg bæta kommentakerfi inn á síðuna sína!
(Ert ekki einn lengur, verður að fara að skrifa e-ð reglulega! :)
híhíhí.... hann verður rosa glaður með þessa kynningu! :p

Talandi um nýjar heimasíður... þá er Draupnirinn kominn með nýja síðu. Svo er bara að vona að Draupnismenn og aðrir verða duglegir að láta þar í sér heyra!!

Bless kex og góða helgi

Stjórnin

Var að horfa á nokkur atriði úr gömlum kastljós þáttum. (www.ruv.is/kastljos)
Fimmtudaginn 3 nóvember kom Stjórnin og spilaði í þættinum. Verð bara að hrósa þeim fyrir að hafa ráðið Einar Braga sem dansara í laginu sem þau tóku. Dásamlega hallærislegt.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Íslenskt popp

Búinn að vera að hlusta á nokkrar íslenskar poppplötur á tónlist.is

Þær sem vert er að nefna: (ófagleg gagnrýni að vanda)

Nýja Sálarplatan, klárlega ekki þeirra besta verk en þeir standa nú bara alltaf fyrir sínu blessaðir og mörg fín lög á þessum disk og textarnir góðir eins og oftast. Sagt er að þeir leiti öðru fremur uppruna síns á þessum disk... ekki veit ég hvurn djöfulinn það þýðir nú. En mæli alveg með "Undir þínum áhrifum" og gef þeim 4 í einkunn.

Írafár gaf út samnefnda plötu. Ég gengst fúslega við því að kallast Írafár aðdáandi. Samstarf þeirra Vignis og Þorvalds bjarna skilar sér í virkilega góðum lögum sem gerir bandið tvímælalaust að besta poppbandi landsins. Ég hef verið nokkuð hrifinn af diskum þeirra hingað til en held svei mér þá að þetta sé sá besti. Ég held að allir sem eru núna að hugsa "piff... hlusta ekki á svona gelgjutónlist" ættu að gefa þessum disk séns og hlusta á hann einu sinni... þau eru nefnilega ekki ennþá að spila því að ég hef fingur því ég vil bara vera ég, vera ég sjálf.
5 í einkunn... ekkert svo langt frá sexunni!

æ... það er eitthvað við skítamóral sem gerir mig svo helvíti hressan! Ekki það að þetta sé eitthvað sem maður setur á fóninn þegar maður vill hlusta á gæðamúsík, heldur kunna þeir bara að gera lögin sín eitthvað svo skemmtileg og maður verður glaður og langar jafnvel til að sturta í sig kippu og fara á djammið :)
Neikvæður punktur að Einar Ágúst sé ekki lengur með þeim en ég gef "má ég sjá" samt glaður 4 í einkunn og set diskinn á í næsta partýi.

Bubbi stendur að sjálfsögðu undir væntingum og gefur ekki út eina leiðinlega plötu heldur tvær. Ég hef nú ekki verið mikið fyrir Bubba í gegnum tíðina (það hefur ekkert með fordóma mína gegn sköllóttum að gera) en hann hefur átt sína góðu spretti en hann sýnir undantekningalítið þá spretti ekki á þessum plötum, "fallegur dagur" er ein af fáum undantekningum á leiðinlegu og allt að því barnalegu gauli.
Splæsi nú samt á hann óverðskulduðum 2, einn í einkunn fyrir hverja plötu.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Myndir

Ég tók mig til og vann það þrekvirki að setja inn 764 myndir á myndasíðuna og kommenta á margar... sem er auðvitað allt of mikið af myndum og nær ógjörningur að komast yfir allt þetta magn.

En allavega, ykkur er velkomið að sjá það í myndum hvað á daga mína hefur drifið síðastliðna mánuði... og ef þið hafið e-ð skemmtilegt að segja þá er hægt að kommenta á myndirnar :)

Ætli það komi svo ekki bara noregsmyndir inn bráðlega... svei mér þá dugnaðurinn.

(þess má líka geta að þegar það kemur ... (þrír punktar) eftir fyrirsagnirnar á myndunum þá stendur eitthvað meira um þær. Svo ef það koma flottar myndir þá er hægt að smella á "Get original uploaded photo" og þá verður hún rosa stór og fín :)

Góða helgi

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Maður er með blogg já...

Er að hlaða inn milljón skrilljón myndum, ætti að vera tilbúið á morgun. Reyndar mest bara myndir af landslagi og byggingum og fólki sem þið þekkið ekki rassgat en það er ykkar vandamál ekki mitt.

Góðar stundir

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

jammm....

Lítið um blogg = lítið að frétta

Kannski helst að hlunkurinn dreif sig af stað og keypti sér kort í líkamsræktarstöð... svo er bara að vona að maður endist, geri ekki eins og Óskar Sturlu sem keypti sér kort í líkamsrækt, mætti svo u.þ.b. tvisvar sem gerði það að verkum að hver tími kostaði að meðaltali mörg þúsund kall. Mikill snillingur hann Óskar.
Ég keypti mér reyndar ekki kort í líkamsræktarstöð með fullt af fínum tækjum og tólum með innbyggðum einkaþjálfara, þremur skvass völlum, tveimur nuddpottum, salatbar Ágústu Johnson & Johnson í andyrinu, friends þættina á repeat á tuttugu sjónvarpsskjám, Eric Prydz tónlistina til að halda taktinum, og fullt af myndarlegum og vel vöxnum stúlkum á næsta æfingartæki. Onei, þetta er sko hard core, fékk mér kort í sal þar sem tækin eru hvorki með play né start-takka, hvað þá rauf til að stinga einkaþjálunarkorti í. Bara beisik tæki og svo frjáls lóð! Allir sem þarna æfa eru helmassaðir guttar (að sjálfsögðu fyrir utan mig) sem hafa líklega lítið gert síðust fim árin en að lyfta lóðum og þamba prótein (og öll hin kraftaefnin sem ég þekki ekki) drykki. Í tveggja milljóna vatta hátölurunum (sem virðast btw alltaf vera í botni) eru Rammstein og Rocky I, II og II soundtrack á repeat & shuffle. Já, þetta er alvöru... og niðurstaðan er sú að ég er helaumur í öllum líkamanum, harðsperrur dauðans... en þetta er gaman og ég þakka Matthíasi frænda fyrir góð ráð!

Annað sem vert er að segja frá... jú, haldiði að maður sé ekki byrjaður í hljómsveit. Svosem ekkert óvenjulegt við það nema kannski að ég spila á bassa í hljómsveitinni. Bandið varð náttúrlega helmingi lélegra eftir að ég byrjaði að spila með þeim enda töluvert langt frá því að hafa getið mér gott orð sem bassaleikari... en hvað um það, drengirnir sáu þarna gott efni, sem ég klárlega er og er stefnan tekin á að taka þátt í rokkkeppni 21. des. Það verður stuð! :) Ætla að vera búinn að æfa mig ofboðslega mikið þá, enda þurfum við bara að spila tvö lög þannig að það ætti alveg að reddast.

segjum það í bili

föstudagur, október 28, 2005

Ef lífið væri einn sólarhringur

Ef lífið væri einn sólarhringur og klukkan er 12 á hádegi, laugardaginn 29. október 2005.

*Klukkan 4:15 í nótt gerðist sá merki atburður að ég, Sævar Jökull, fæddist.
*Rúmu korteri seinna var John Lennon skotinn
*Fæðing mín féll þó svolítið í skugga fæðingu Jesú krists fyrir 25 dögum
*Þegar ég vaknaði í morgun um klukkan 8 hljómaði “Livin´ on the edge” með Aerosmith í útvarpsvekjaranum en það var besta lagið að mati áhorfenda MTV
*Við morgunverðarborðið klukkan 10 höfðu MTV áhorfendur hins vegar skipt um skoðun og fannst þá “I wan´t it that way” með Backstreet Boys vera besta lagið.
*Ég söng með báðum enda sérlega morgunhress
*Með saltkjötinu í gærkvöldi var kjarnorkusprengjum varpað á Hirosima og Nagasaki
*Klukkutíma og 48 mínútum áður höfðu þjóðverjar ráðist inn í Pólland
*Vísindamenn eru nokkuð sammála um að jörðin er 154 milljóna ára gömul
*Rétt fyrir klukkan 11:24 eignaðist ég stórmyndarlegan nafna, rúmum þremur mínútum áður en jólaklukkurnar hringdu
*Það þýðir að hann er nýbúinn að halda upp á 36 mínútna afmælið sitt
*Á næstu tveimur tímum ætla ég að halda upp á afmælið mitt klukkan 12:04, 12:22, 12:40, 12:58, 13:16, 13:34 og 13:52. Gjafir og blóm eru æskileg
*Eftir 3 mínútur og fjörtíu sekúndur kem ég til Íslands
*Það tók þig um 0,008219 sekúndur að lesa þessa bloggfærslu
*0,01233 sekúndur ef þú ert lesblind(ur)

Það held ég nú

laugardagur, október 22, 2005

músík

Ég á það til að fá algjört æði fyrir einhverri plötu, þ.e. ég kaupi mér eða downloda disk og fer sá diskur ekkert úr spilaranum næstu daga, vikur eða jafnvel mánuði.
Ég er svo gríðarlega heppinn þessa dagana að vera gjörsamlega húkkt á 3 plötum! Ég ætla ekki að vera með neina plötugagnrýni hérna en vil samt segja ykkur frá þeim ef ykkur vantar hugmyndir af músík til að kaupa... eða downloda (fyrir glæpamennina)

1. Sigur Rós - Takk
Hvað getur maður sagt! Það elska allir Sigur Rós og ég er engin undantekning. Skellið "Takk" á fóninn, setjið heyrnartólin í samband, hækkið vel og svífið inn í annan heim! Dásamlegt

2. Starsailor - On the outside
Þessi plata kom út á mánudaginn sl. Frábært verk hér á ferð sem ég á líklega eftir að hlusta svipað mikið á og "X&Y" með Coldplay... semsagt ótrúlega mikið! Tvímælalaust þeirra besta plata! Magnað helvíti

3. Mew - Frengers
Síðast en svo sannarlega ekki síst er það nýjasta afurð dönsku hljómsveitarinnar Mew. Þetta er algjört snilldar band! frábær músík með dásamlegum söng. Klárlega mitt uppáhalds band þessa dagana og ég hlakka til að fara að gúffa í mig eldri verk þeirra. Náið ykkur í eintak... NÚNA!

Jamm... þarna eru 3 stykki sem fá öll mín bestu meðmæli... og hananúh!

gsm

er kominn með nýtt númer hér í noregi: +47 41585726

-þeir sem hringja ekki í mig eru hommar og niðursetningar
-þeir sem hringja í mig eru snillingar og kláðamaurar

fimmtudagur, október 20, 2005

leti hreti feti éti breti

ja hérna hvað letin er að drepa mann...

-ætlaði að vera duglegur að blogga þegar ég kæmi til noregs...
-neibb... ekkert hefur gerst fyrr en þessi litla færsla kom til sögunnar, en hún kom svona rétt til að friða mannskapinn, hef verið að fá allt of mikið af kvörtunarbréfum frá aðdáendaklúbbum síðunnar víða um heim.
Lofa þó að þetta standi til bóta á næstu dögum!

-Ætlaði að setja inn gommu af myndum...
-neibb... ekkert hefur gerst ennþá, myndirnar eru þó komnar inn á tölvuna sem er skref í rétta átt!
Vona að þetta standi til bóta á næstu dögum!

-Ætlaði að minnsta kosti að setja nokkura vikna óhreinan þvott í þvottavélina
-neibb... ekkert hefur gerst ennþá, bremsufarið í brókinni minni líkist spólfari á H-planinu eftir (sp)Óla Magg á heavy tjúnuðum amerískum 600 hestafla ford á 17 tommu low profile dekkjum á grásanseruðum krómfelgum, kítti allan hringinn, dökkt í rúðum, Prodigy í botni og Breezer í hönd.
Vona að þetta standi til bóta á næstu vikum!

miðvikudagur, október 12, 2005

God save the queen

Hver hefur ekki velt því fyrir sér hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór. Í dag hef ég ekki hugmynd en það er gaman að því hvað vinir mínir eru búnir að stela mínum hugmyndum um framtíðarplönin í gegnum tíðina...

-Tveir vinir mínir hafa starfað sem lögreglumenn
-Fjöldi vina minna eru og hafa verið sjómenn
-Vinur minn er flugmaður
-Vinur minn er slökkviliðsmaður
-Fullt af vinum mínum eru lögfræðingar eða að læra það
-Enginn vina minna er ruslakall

Var svona að velta þessu fyrir mér þar sem ég þarf alvarlega að fara að pæla í því hvað maður á að gera þegar maður kemur heim í janúar... veit bara ekkert hvað ég á að gera... allar hugmyndir vel þegnar
Kannski ég velji bara eina drauminn sem vinir mínir hafa ekki uppfyllt, þ.e. ruslakallinn.

Jæja... nú liggur leiðin næst til Englands... nánar tiltekið á fótboltaleikinn Liverpool-Blackburn. Svo auðvitað skoðar maður eitthvað annað áhugavert í Liverpool líka, er ekki skylda að skoða bítlasafnið og eitthvað? hmmmm...
Í næstu viku verður maður svo bara kominn í faðm fjölskyldunnar í Noregi... loksins!

mig langaði rosa mikið til að kommenta á bloggin hjá Fanný og Matthíasi en sá fram á of löng svör til að hafa tíma til að skrifa þau :s

Þar til í næstu viku
Sævar ruslakall

mánudagur, október 10, 2005

Stansted

Veit einhver hvort Stansted flugvollur i London se opinn allan solarhringin? T.e.a.s. hvor madur geti komid thar seint um kvold, eytt thar nokkrum klukkutimum og flogid thadan morguninn eftir?
help plz!!!

föstudagur, október 07, 2005

Sólbrún og sæt???

Var að skoða myndir frá Hverfisbarnum...

Voddafokkmaður!!
Eru íslendingar alveg að tapa sér í brúnkukremanotkun!?!?

Réttast væri að koma heim og kúka yfir ykkur öll!

fimmtudagur, október 06, 2005

Halló

Stutt í dag...

Pólland - Ísland á morgun
Hræddur um að Pólland fari létt með þetta...
Ég verð á vellinum hvet okkar menn áfram í hæfilega miklu magni til að vera ekki laminn.

Kvikmyndahátíð í gangi hér eins og á Íslandi...
Ég ætla að sjá 4 myndir... þar á meðal hina Íslensku "Gargandi Snilld"

Orð dagsins erÆ sveitalubbi
ekkert smá fyndið orð sem ég mundi allt í einu eftir og var búið til um dreifbýlispakk.

Jæja... meira fáið þið ekki í dag

Sævar sveitalubbi

fimmtudagur, september 29, 2005

Músík
Ég, ásamt 150 þúsund pólverjum, fór a Sting tónleika á laugardaginn. Það var magnað helvíti, ekkert smá góður a tonleikum kallinn!
Á sunnudaginn fór ég á útitónleika í fallegum garði þar sem píanoleikari sem ég veit ekki hvad heitir spiladi verk eftir Chopin, þad var einnig afskaplega fínt. Set myndbrot af bádum tónleikunum hérna inn við tækifæri.
Frá mér kemur því miður lítið af tónlist þessa dagana... nema einstaka trall og humm.

Boltinn
Vildi að ég gæti sagt fótboltafréttir af sjálfum mér, ekkert smá sem ég sakna þess að spila! Hlakka til þegar ég kem heim i janúar að byrja á fullu med þriðja uppáhalds liðinu mínu, á eftir Liverpool og BN'96, FC Ice.
Liverpool gerði jafntefli vid Chelsea i gær eftir að hafa verið betri aðilinn í leiknum og fengu ekki dæmt verðskuldað víti... svekkjandi.
Ég er ekki sammála dómum sem sumir leikmenn fengu, Alonso var sagður vera slakur, mér fannst hann einn besti maður leiksins, stoppaði miðjuspil chelsea hvað eftir annað með frábærri baráttu. Ég er orðinn rosalegur aðdáandi Peter Crouch, hann var líka einn besti maður leiksins i gær, frábær leikmadur þarna á ferð... held ég seti bara mynd af þessum 2,02 metra tannstöngli, þar sem hann er að taka tvo manchester titti í nefid í skallaeinvígi, í lok þessarar færslu, honum til heiðurs.
Þad er ljóst að það verður hörð barátta um hvaða nafn verður aftan á búningnum sem ég mun kaupa mer í Liverpool.

Lífið
Annars er lífið bara ljúft... Fer til Krakow, sem þykir mjög fallegur staður, á morgun og verð yfir helgina. Auschwitz fangabúðirnar eru ekki langt frá þeim stað þannig ad það er spurning hvort maður kikki ekki þangað í leiðinni.
Er ad leita mér að upplýsingum hvar maður nálgast miða á landsleikinn Pólland-Ísland 7. okt. Það verður stuuuuð...

Sælar

laugardagur, september 24, 2005

Sting!

Ég er að fara á tónleika með Sting í kvöld... ÚYEAHH!!!!

föstudagur, september 23, 2005

Klukk

Ég hef verið duglegur að vafra um bloggheima síðustu daga og mér til mikillar skemmtunar hefur blessaður klukkleikurinn dreift sér um bloggsíður eins og vírus. Það er gaman að lesa tilgangslausar staðreyndir um vini sína en... skemmtilegheitin urðu minni eftir því sem á leið, ástæðan... jú, enginn klukkaði burrann! Á hverjum degi skoðaði ég bloggsíðu allra í heiminum og... ekkert klukk, mér leið eins og ég væri gleymdur, skilinn útundan, þetta jaðraði við einelti. En svo kom að því maður! af mikilli miskunarsemi, næsleika og tilfinningagreind klukkaði Smárason mig eftir að hafa talið upp 5 mjög skemmtilegar tilgangslausar staðreyndir um sjálfan sig.

here we go...

1. Ég heiti Sævar Jökull Solheim. Ég er 3/4 íslendingur sem gerir það að verkum að ég tel mig ekki vera orðinn drukkinn fyrr en ég get engan veginn gengið eðlilega, hreyti þoglumæltum fúkyrðum yfir annað fólk og allt kvennfólk er orðið fallegt. Kjeellingar í útlöndum þykjast vera orðin "drunk" eftir 3 bjóra.
Ég er 1/4 norðmaður sem gerði það að verkum að norska ríkið vildi ólmt dæla í mig peningum á meðan námstíma mínum stóð.
Ég er þó farinn að efast um þennan uppruna minn þar sem undanfarna 3 mánuði hef ég iðulega fengið að heyra að ég líkist mest "typical Serbian hooligan" eða "dæmigerðri serbneskri fótboltabullu"
Áfram Partizan!

2. Ég hef á ferðalagi mínu markvisst þróað með mér mikla ofsahræðslu við moskító, mýflugur og önnur lítil ógeð sem stinga mann og láta mann fá litlar bólur sem mann klægjar í og klórar sig til blóðs útaf.
Á hverju kvöldi úða ég skordýraspreyi á sjálfan mig og um allt herbergið (þrátt fyrir að vita að eina lifandi veran þar er ég), leggst svo undir sængina og þjappa henni vel að mér um allan líkama til að tryggja að ef fluga bíður eftir mér í laumi undir sænginni þá er hún að minnsta kosti dauð eftir þjöppunina. (stefni á að óska eftir sálfræðitíma hjá fyrrgreindum Smárasyni þegar ég kem heim)

3. Mér finnst of gott að sofa og finnst 13:00 vera ákjósanlegur tími til að skríða framúr.
Ég geri stundum heimskulega hluti þegar ég sef. Á yngri árum í Noregi vöknuðu foreldrar mínir eitt sinn upp við það að ég stóð og pissaði á HE-MAN kastalann minn og alla HE-MEN kallana. Á marbakkanum kastaði ég sænginni út um gluggann, pabbi þurfti að hlaupa út á brókinni og sækja hana. Í Svartfj.landi vakti ég Vincent (meðleigjandann) til að tilkynna honum að hann væri með missed call... sem var að sjálfsögðu ekki rétt.

4. Til er margskonar fíkn, s.s. koffín- nikótín- kynlífs- áfengis- spila- og netfíkn.
Ég er fíkill í mjólkurvörur.

5. Í fyrra datt Eyþór Arnalds á hausinn á mér þar sem ég sat í sakleysi mínu í tröppunum sem liggja ofan í laugardalslaugina.
Fyrst Eyþór Arnalds er að detta á fólk út um allt þá hlýtur það að vera töff, þannig að stuttu seinna tók ég upp á því að hrynja niður allan bratta stigann á Hverfisbarnum. Hvernig ég stóð ómeiddur (fyrir utan rassverki næstu 2 mánuðina) upp frá því er mér ráðgáta... en ég var allavega töff... eins og Eyþór.

Ég klukka Ólaf Arnar, þótt búið sé að klukka hann... dobbúl klukk félagi! Þórarinn á splunkunýja blogginu, mellurnar, Villa Harða og Dich Milch hommana.

Góða helgi

miðvikudagur, september 21, 2005

(al)þjóðaréttir

Ég hélt að maður gæti gengið að því vísu að þegar maður kemur inn á veitingastað alþjóðlegrar skyndibitakeðju þá á maður allstaðar að geta fengið það sama... oooneiii... Á KFC í austur evrópu er hreinlega ómögulegt að fá BBQ borgara! HVAÐ ER ÞAÐ?!?! Ef Ásgeir Rúnar vinur minn væri hérna með mér núna þá myndum við fara í hungurverkfall!! ...eða nei, kannski ekki hungurverkfall, það er of erfitt, en við myndum klárlega stofna til mótmæla aðgerða, enda báðir miklir KFC BBQ borgara aðdáendur.
Kannski þetta hafi eitthvað að gera með það hvað þeir vilja ómögulega blanda saman sætum og söltum mat. Annað hvort borðaru sætt eða salt... punktur. Ég veit ekki hvert serbneskir vinir mínir ætluðu við morgunverðarborðið þegar ég setti BÆÐI ost OG sultu á brauðið mitt, svo hneykslaðir voru þeir og ekki séns í helvíti að fá þá til að smakka góðgætið.

Ég held ég láti skyndibitann bara bíða þar til maður kemur heim, enda þjóðlegri réttir hér stórgóðir.

Að lokum...
Tímabilið byrjar ekki alveg jafn vel og vonast var til... en góðu fréttirnar eru að enginn leikur hefur tapast og meistaradeildarbaráttan byrjar vel.
Get ekki beðið eftir að sjá þessar hetjur þann 15. okt.
Ætlar einhver að joina?


Kv. frá Prag

sunnudagur, september 11, 2005

Klaufinn...

Hillú
Má ekki vera að því að blogga núna,bara að láta vita að ég týndi símanum mínum í gær, þannig að saevarjokull@gmail.com er eina leiðin til að ná í mig.
Týndi reyndar kreditkortinu mínu líka... í fyrradag.
Meiri klaufinn
Annars gengur ferðin bara ljómandi vel
Kv. frá Zagreb

föstudagur, september 02, 2005

farinn hættur búinn bless

Sælar!

Þá er maður bara að kveðja Svarfjallaland maður... þetta er búið að líða ótrúlega hratt og búið vera hreint magnað.
Ekki laust við það að maður hafi loksins hrunið í það í gær! er rétt núna að ná áttum. Þótt maður hafi verið búinn að sulla í bjór í mest allt sumar þá hefur alveg vantað að hrynja í það með stæl og verða sjálfum sér og öðrum til háborinnar skammar... það var ljúft!!!

Í dag var síðasti dagurinn í vinnunni. Alltaf leiðnilegt að kveðja, en fokkit læf gós on.
Það er nú því miður oft þannig að góðum fylleríum fylgir þynnka. Dagurinn í dag var óbærilegur en það gerðist samt frekar fyndið atvik í vinnunni sökum þynnku... allt starfsfólkið var kallað saman í smá partý, ég fékk slatta af kveðjugjöfum og fólk gúffaði í sig veitingum (sumir höfðu enga lyst) og svo var formlega verið að þakka mér fyrir sumarið og eitthvað nema hvað... Sævar, sem sökum þynnku sá bara allt svart reyndi að brosa blítt þrátt fyrir þynnkusvitann sem perlaði á enninu en viti menn... í miðri tilfinningaríkri ræðu forstjórans þurfti strákurinn að skila morgunmatnum og það strax!! þannig að það var ekkert annað að gera, þrátt fyrir að augu allra væru á manni, en að segja bara ekskjús mí og bruna af stað í áttina að baðherberginu með hönd fyrir munni...
Já... eftir að kornfleksið hafði farið út sömu leið og það fór inn var frekar vandræðalegt að koma til baka og láta sem ekkert væri. Hressandi að koma með svona "last impression" :)

Þótt vinnan sé búinn og maður fer að yfirgefa Svartfjallaland er ekki þar með sagt það séu leiðinlegir dagar framundan... onei... planið er eftirfarandi: Podgorica -> Króatía (Dubrovnik, Split, Sagreb) -> Serbía (Subotica) -> Ungverjaland (Budapest) -> Tékkland (Prag) -> Pólland (Warshaw, Krakow ofl.) -> England (London, Liverpool) -> Noregur. Áætlaður komutími til Íslands... Janúar.
Þetta er nú gróft plan og margt gæti breyst í leiðinni þar sem lítið hefur verið gert af því að panta gistingu og ferðir fyrirfram.

Jæja... veit ekkert hversu mikið maður bloggar í túrnum
kemur í ljós
verið hress, ekkert stress... bless

fimmtudagur, september 01, 2005

Sarajevo, part III of III

Myndirnar má stækka með því að smella á þær

Nóg komið af stríði og morðum.
Sarajevo er mjög falleg borg sem gaman er koma til, sértaklega í múslimska hlutann þar sem umhverfið er svo allt annað en í hinum nýtískulegri hluta. Á göngugötu bæjarins gengur maður úr röð tískuvöruverslana (mynd 1) yfir í annan heim, undirlagðan af götusölum, járnsmiðum og tyrkneskum veitingastöðum, (mynd 2) ótrúlegt að breyta svona um umhverfi með því einu að labba 3 skref.
Tyrkir réðu lengi ríkjum í Sarajevo og mætast því þarna ólíkir menningarheimar og það er eitt af því sem mér finnst mjög merlilegt og skemmtilegt við þessa borg. Hún er ein af sönnunum þess að fólk með mismunandi trúarbrögð getur vel lifað í sátt og samlyndi, því til sönnunar er þarna fjöldi "anda-/bænahúsa" og í aðeins 500 metra radíus má finna kaþólskar kirkjur, moskur múslima, "monastery" orthodoxtrúaðra og synagógur gyðinga... svo er bara að velja á milli, bentu á þann sem að þér þykir bestur.
Ef ég stæði frammi fyrir vali þá myndi ég líklega ekki velja að vera múslimi... það er eitthvað svo mikið vesen, að þurfa að fara með bænirnar á sérstökum stöðum 5 sinnum á dag. Stúlkurnar á mynd 3 eru einmitt á leið til bæna. Mig langar samt núna rosalega mikið að fara til einhvers lands þar sem múslimar ráða ríkjum... held að það sé mjööög áhugavert... kannski það sé bara næst á dagskrá.

Þar með lýkur þessari Sarajevo trilogíu :)

Jæja... 3 blogg þessa vikuna, ég held að það sé persónulegt heimsmet sem ég mun reyndar slá á morgun!

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Sarajevo, part II of III

Myndirnar má stækka með því að smella á þær

Þetta virðist í fyrstu sýn vera venjulegt götuhorn, ekkert merkilegra en hvert annað, jafnvel heldur ómerkilegra.
Svo er þó ekki því þarna gerðist merkilegur atburður, þarna misti ég nefnilega sveindóminn... nei, það var reyndar uppí rúmi, undir sæng, ljósin slökkt og tók fljótt af en það er nú önnur og styttri saga.
Gaman væri að vita hvort þú, lesandi góður, getur gískað á hvað þarna gerðist (bannað að skrolla niður og svindla). Gískaðu og kommentaðu hvort það hafi verið rétt hjá þér eða ekki... þeir sem geta rétt fá verðlaun.
Setjum tímann í gang... núna!
tikk
takk
tikk
takk
tikk
takk
og... tíminn er liðinn.
Ég býst við að glöggir söguspekúlantar hafi getið sér rétt til og fá þeir útrunnin smokk í verðlaun...
En á þessu horni mun Gavrilo Princip hafa staðið þegar hann drap Franz Ferdinand og konu hans Sophie von Chotkovato sunnudaginn 28. júní 1914, atburðurinn sem markar upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Þau hjón munu hafa verið keyrand eftir götunni á mynd 2 á miklum hraða (í áttina að myndavélinni) enda meðvituð um að kallinn væri í töluverðri hættu þar sem hann var ekki vel liðinn í Bosníu (þið getið sjálf lesið ykkur til um af hverju það var... ég er enginn helvítis sagnfræðingur).
Vegna klúðurs tók ökumaður þeirra hægribeygju inn götuna á mynd 1 en eftir að hershöfðingi sem var staddur með þeim í bílnum öskraði á hann að um rangan veg væri að ræða steig ökumaðurinn á bremsuna og byrjaði að bakka til baka. Hann bakkaði þó ekki nógu hratt og voru hjónin því auðveld bráð Princip sem beið átekta við hornið.
Í dag er skjöldur á húsveggnum (mynd 3) sem minnir á þennan atburð.
Já... það er gaman að skoða sögufrægar slóðir

mánudagur, ágúst 29, 2005

Sarajevo, part I of III

Myndir má stækka með því að smella á þær

Það er skrýtin tilfinning að koma í borg þar sem ekki eru liðin 10 ár frá því að þar voru háðir blóðugir bardagar í stríði sem kostaði yfir 200.000 manns lífið, mestmegnis fólk frá Bosníu. 10 ár... það er ekkert! Þegar Bó Hall stóð frammi fyrir Evrópu og söng Núna í eurovision söngvakeppninni (eitt af fjölmörgum 15 sætum Íslands) þá rigndi sprengjum yfir Bosníu.
Það er reyndar ekki að sjá að svo stutt sé síðan þarna var stríð, svo mikil hefur uppbyggingin verið, með mikilli þróunarhjálp vestrænna ríkja, og í raun mjög falleg borg sem ég myndi gjarnan vilja eyða meiri tíma í. Helstu ummerki stríðs eru einstaka byggingar sem ekki hafa verið gerðar upp... það hélt ég í það minnsta þar til ég var á leiðinni út úr borginni og spurði sakleysislega hvaða tilgangi öll götin, sem þekja nánast allar byggingar í bænum, þjónuðu. "Þau þjóna nú engum tilgangi, þetta eru skemmdir sem flísar ollu þegar þær þeyttust um allt þegar sprengjum var varpað á okkur"... Ég hafði ekki einu sinni tekið mynd af þessum götum þar sem mér datt ekki í hug að sprengjum hafi gjörsamlega rignt um alla borgina og ég áttaði mig á því að það var ekkert verið að ýkja þegar sagt var að Sarajevo, vetrarólympíuleikaborgin 1984, hafi nánast verið jöfnuð við jörðu í stríðinu.

Mistur lá yfir borginni þegar við gengum upp á einn hólinn til að skoða útsýnið en á fyrstu myndinni má sjá ágætlega hvernig landið liggur, en borgin er í raun umkringd fjöllum, eða öllu heldur hólum. Í stríðinu voru þessir "hólar" hersetnir af óvininum, serbum, og voru íbúar borgarinnar því innilokaðir og gátu sig hvergi hreyft.
Á einum þessara hóla, sem sést að hluta til lengst til hægri á fyrstu myndinni, lá leyniskytta. Ekki eru menn sammàla um hvort þarna hafi verið serbneskur hermaður eða rússneskur atvinnumaður en það skiptir ekki öllu. Leyniskytta þessi lá í skotgröf sinni og vakti yfir borginni alla daga og skaut á allt sem hreyfðist, mestmegnis á óbreytta borgara. Talið er að skyttan hafi drepið yfir 200 manns og sært ennþá fleiri, einn af þessum 200 var besti vinur Nedzad, stráksins sem stendur með okkur Vince á annari myndinni (í gallabuxunum). Það er erfitt að ímynda sér að ekki sé hægt að fara út á götu án þess að eiga hættu á að vera skotinn af leyniskyttu. Borgarbúar gerðu þó ýmsar ráðstafanir eins og að hengja stór tjöld um alla borg svo skyttan gæti ekki séð fólk sem nauðsynlega þurfti að fara út á götu, t.d. til þess að standa í röð eftir vatni og mat handa fjölskyldum sínum.

Maðurinn á þessari mynd heitir Slavisha og vinnur hjá sama fyrirtæki og ég. Hann er 31 árs gamall og er frá Bosníu, hann barðist fyrir þeirra hönd í stríðinu, tvítugur að aldri.
Hann var í hersveit sem samanstóð af 300 hermönnum, hann þurfti að horfa á flesta félaga sína vera drepna þar sem aðeins 10 af þessum 300 stóðu eftir lifandi að stríði loknu. Af hverju hann var einn af þeim heppnu veit ég ekki. Þriðja myndin er af einum af fjölmörgum kirkjugörðum þar sem hermenn sem létust í stríðinu liggja.
Hann sagði að vera þátttakandi í stríði væri hryllingur og ekkert líkt stríðsmyndunum sem við leigjum á vídjóleigunum, meðvitaður um að það er líklega sú mynd sem við "friðsældarfólkið" frá vestrænum ríkjum höfum af stríði. Mest allur tíminn fer í það að bíða og bíða... og bíða... og ekkert gerist og þá þarftu að halda áfram að bíða þangað til þú ert nánast dauður úr leiðindum og þá byrjar hryllingurinn og blóðsúthellingarnar og þú vildir óska að þú værir ennþá bara að bíða.
Honum leið greinilega illa þegar hann byrjar að tala um þetta, þannig að við létum þar við sitja.

föstudagur, ágúst 26, 2005

....

Ég er farinn til Bosníu yfir helgina... nánar tiltekið Sarajevo

Bless kex

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

brandari og allt...

Ég held ég hafi aldrei sett brandara inn á bloggið... ekki svo ég muni allavega. Nú verður breyting þar á:

Kona nokkur var að versla í Bónus-verslun í hverfinu.
Hún var búin að setja 3 lítra af léttmjólk í körfuna ásamt 1 eggjabakka með 10 eggjum, 1/2 lítra af appelsínusafa, 1 höfuð kínakál, kaffipakka og bréfi af beikoni.
Ölvaður maður fyrir aftan hana í röðinni fylgdist með þegar hún raðaði þessum hlutum á færibandið við kassann. Þegar kassadaman tók til að lesa strikamerkin inn sagði drukkni maðurinn hæglátlega:
"Þú ert örugglega einhleyp"!

Konunni gramdist þessi ummæli drukkna mannsins en jafnframt fannst henni athugasemdin skondin þar sem það var vissulega rétt, hún var einhleyp. Hún virti fyrir sér þessa sex hluti á bandinu og furðaði sig á hvernig í ósköpunum hann gæti komið með svona fullyrðingu af þessum ósköp venjulegu innkaupum. Forvitnin varð henni um megn svo hún sagði:
"Þetta er vissulega hárrétt hjá þér. Hvernig í ósköpunum geturðu séð það??" . . .


...Og drukkni maðurinn svaraði:

"Af því að þú ert svo ljót!"

mánudagur, ágúst 22, 2005

blessuð þynnkan

Hvað er það versta sem hægt er að gera þegar þessi óhjákvæmanlegi fylgikvilli ofurölvunar ber að garði?
Sitja í 3 tíma í yfirfullri rútu með serbneska tónlist í botni

úffúff...

föstudagur, ágúst 19, 2005

Tíminn og vatnið

púff... maður hefur sagt þetta svona sjöþúsund þrjúhundruð sextíu og tvisvar sinnum og því um að gera að segja það einu sinni enn þannig að maður er þá kominn upp í sjöþúsund þrjúhundruð sextíu og þrisvar sinnum, hvert fór sumarið?!?! djöfulli líður tímin hrikalega hratt... eða eins og hún Fanný mín hefði orðað það, sjitturinn titturinn mellan og hóran maður! Sumarið er semsagt að hverfa á braut og ég farinn að undirbúa fimmtugsafmælið mitt... og þó ekki enn búinn að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór. Ekki úr vegi að vitna í texta á afburðar góðu lagi: "fullorðinn er bara til, í huga barns" ...sannarlega vel mælt!

En... það þýðir nú ekki að leggjast í einhverja tilvistarkreppu yfir því! Maður er á fullu að undirbúa ferðalagaflakk sem ég mun nú segja betur frá síðar, en talandi um ferðalag. Planið er að enda í Englandi, nánar tiltekið Liverpool og fara loksins á leik... en vá! djöfull eru miðar á leikina dýrir! Mér sýnist ég þurfa að eyða öllum peningnum sem ég fékk í afmælisgjöf í að kaupa blessaðan miðann. Ég eiginlega trúi því ekki að maður þurfi að punga út 200 pundum fyrir einn leik (ekki stórleik). Ef einhver lumar á góðu ráði hvernig forðast má okurkostnað í þessum efnum þá endilega kommentið!

Fólk er oft að velta fyrir sér við hvað ég er að vinna hérna... ég hef greinilega ekki gert mig mjög skiljanlegan hvað það varðar, ég velti því reyndar oft fyrir mér sjálfur.
Þessa stundina sit ég fyrir framan tölvuna og er að búa til myndir fyrir dagatal sem fyrirtækið gefur út á næsta ári... vinnan snýst mjög mikið um að að gera einmitt það, sitja við tölvuna og gera myndir fyrir allan anskotann, veggspjöld, auglýsingar, "flyera", verðmiða o.s.frv. Til gamans eru hér nokkur sýnishorn af því sem ég hef verið að dunda... Ég er nú enginn myndlistamaður, en yfirmaðurinn er sáttur við það sem ég geri og notar það, þannig að það er fínt mál.

Um helgina ætla ég til Kotor, sem er gamall bær við ströndina en þar á víst að vera eitthvað karnival kjaftæði... sjáum til hvernig það verður.

Veriði margblessuð og góða helgi!

-komdu sæll