mánudagur, nóvember 28, 2005

Dæmisaga úr nýjasta testamentinu (burra guðspjall)

Einu sinni fyrir nokkuð langa löngu var guð sem hét Guð. Honum þótti afskaplega vænt um skepnurnar sem hann hafði skapað fyrir ennþá lengra löngu og kölluðu sig manneskjur. Eitt helgarkvöldið sat Guð upp í himni sínum og horfði niður á sköpunarverk sitt, á manneskjugreyin sem höfðu tilbeðið hann dag og nótt í þúsundir ára ásamt því að færa honum fórnir sem kostuðu oftar en ekki mannslíf, ekki það að hann hafi þurft á þessum fórnum að halda, hann var jú guð og gat fengið allt sem hann vildi. En Guð er góður guð og veit að það er hugurinn sem gildir þegar kemur að fórnum og öðrum trúarathöfnum og nú skyldu skepnurnar verðlaunaðar fyrir dugnað sinn og trúrækni. Gjöf Guðs var að gera manninum kleift að finna upp og framleiða bjór og aðrar áfengisafurðir. Manneskjan var himinlifandi, aldrei áður höfðu partýin verið jafn skemmtileg og konurnar jafn auðveldar, jörðin, aðsetur manneskjunnar, var orðin paradís sem slóg aldingarðinum Eden ref fyrir rass.

Aldrei hafði mannkynið verið svo hamingjusamt, mjöðurinn flaut um allt og allir voru nett kenndir, alltaf. Þessi mikla sæla leiddi hins vegar til þess að fólk fór að leggja minni rækt við trú sína. Tíminn sem vanalega fór í morgunbænir fór í að staupa sig í rétta gírinn fyrir daginn, í staðin fyrir að fara með borðbæn þá fékk fólk sér fordrykk og hrunið var í það á kvöldbænartímum. Þetta gramdis Guði mjög í geði, ekki hefði honum grunað að elskulegu manneskjuverurnar sínar myndu breytast í þvílík skrímsli við að nota gjöfina sem hann hafði svo örlátlega gefið þeim. Eftir að hafa hugsað málið í dágóða stund ákvað Guð að taka til sinna ráða. Hann skipaði svo fyrir að því meira sem hver maður drekkur af miðinum hverju sinni því mun ömurlegra mun þeim manni líða daginn eftir. Þessi aðgerð hins reiða guðs leiddi til þess að áfengissjúkri manneskjunni leið ömurlega með tilheyrandi uppköstum og ógeði í kjölfar mikillar drykkju.

Í þynnkuveikindum sínum fór manneskjan að ákalla guð sinn í miklu mæli og hækkaði trúrækni hennar umtalsvert. Guð var mjög ánægður með þessa breytingu en fannst samt gríðarlega átakanlegt að horfa upp á skepnurnar sem hann elskaði svo mikið þjást svo gríðarlega því ekki voru manneskjugreyin nógu snjöll til að drekka minna af búsinu. Svo erfitt fannst Guði að horfa upp á þetta að það fór að bera á samviskubiti hjá honum. Þegar samviskubitið var farið að naga hinn almáttuga alvarlega þá ákvað hann að hann yrði að gera eitthvað til að lina þjáningar mannsins, en þó á þann hátt að trúræknin myndi ekki minnka mjög mikið. Nú voru góð ráð dýr. Eftir mikla umhugsun fékk hann snilldarhugmynd, hugmynd að gjöf til mannsins til að lina þjáningar hans. Guð gaf manneskjunni þynnkudrulluna.

Nú voru allir glaðir, maðurinn gat drukkið sig út úr kortinu og skemmt sér konunglega, vaknað svo daginn eftir og eytt töluverðum tíma í að líða ömurlega og ákalla guð sinn, taka svo þynnkudrulluna og líða töluvert betur á eftir... allir sáttir! Amen

úfffff.... þvílíka kjaftæðið
var b.t.w skrifað í átakanlegri þynnku

föstudagur, nóvember 25, 2005

Hélstu að þú vissir eitthvað um mig?

Hann Ólafur Arnar félagi minn og vinur gerði svona skemmtilegt quiz um sjálfan sig á síðunni sinni... þegar þessum dreng dettur eitthvað sniðugt í hug... þá hermi ég að sjálfsögðu eftir honum :)
Þannig að... smellið hér:
Hvað veist þú um Sævar?
og komist að því hvort þið þekkið mig nokkuð jafn vel og þið hélduð. Hvet sem flesta til að gera svona quiz líka... rosa gaman :)
Það er btw mjög aumt að svara þessu undir dulnefni.

Góða helgi og góða nótt góðir hálsar... hvar svo sem þið eruð múahahahha

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Hann á afmæl´í dag!

Í dag, þann tuttugasta og annan nóvember á burri afmæli... og er hvorki meira né minna en tveggja ára.

Síðan var stofnuð á miðju próflestrartímabili árið 2003 í þeirri von um að finna sér eitthvað að gera... eitthvað allt annað en að læra fyrir próf. Eitthvað sem flestir námsmenn þekkja.
Nafið burri... það kom algjörlega upp úr þurru enda breytti engu hversu asnalegt það var, það var hvort sem er ekki gert ráð fyrir því að skrifa meira en 2-3 færslur...

En í dag, 219 færslum seinna er burri orðinn tveggja ára og heimsfrægur. Það mætir enginn til vinnu án þess að hafa lesið burra, nema sá hinn sami ætlar að verða eins og hálfviti í kaffipásunni þegar allir eru að tala um síðustu burra skrifin.
Algengasti "Ice-braker´inn" er nú orðinn "lastu það sem stóð á burra í gær" og datt "það er fína veðrið" því niður í annað sætið.
burri er verðskuldað tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna 2005 í flokkunum Besti íslenski vefurinn, Besti einstaklingsvefurinn, Besti afþreyingarvefurinn og Besta viðmóts- og útlitshönnunin.

Það lesa allir burra, því burri er fyrir alla og óskar hann sjálfum sér innilega til hamingju með árin tvö. Húrra húrra húrraaaaa

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Ef eg væri ríkur... dararrararara


Keypti þennan seðil (stækkanlegt með því að smella á myndirnar) í Belgrad í sumar en hann er frá þeim tímum þegar verðbólgan í Júgóslavíu fór sem hæst og er þessi seðill í heimsmetabók Guinnes fyrir hæstu peningaupphæð prentaða á seðil.
Ekki leiðinlegt ef þessi seðill væri í gildi í dag... 500.000.000.000 kall, mætti nota það í ýmislegt, þótt það hafi nú ekki dugað fyrir meiru en nokkrum brauðhleifum hér í denn.

En að öðru...

Ef ykkur hefur einhverntíman dottið í hug að þið eyðið of miklum tíma fyrir framan sjónvarpið... tékkið þá á síðustu bloggfærsluna hjá þessum og ykkur mun aldrei líða þannig framar! :)
Þetta er semsagt mjög skemmtilegt blogg hjá Einari bróður, sem mætti reyndar alveg bæta kommentakerfi inn á síðuna sína!
(Ert ekki einn lengur, verður að fara að skrifa e-ð reglulega! :)
híhíhí.... hann verður rosa glaður með þessa kynningu! :p

Talandi um nýjar heimasíður... þá er Draupnirinn kominn með nýja síðu. Svo er bara að vona að Draupnismenn og aðrir verða duglegir að láta þar í sér heyra!!

Bless kex og góða helgi

Stjórnin

Var að horfa á nokkur atriði úr gömlum kastljós þáttum. (www.ruv.is/kastljos)
Fimmtudaginn 3 nóvember kom Stjórnin og spilaði í þættinum. Verð bara að hrósa þeim fyrir að hafa ráðið Einar Braga sem dansara í laginu sem þau tóku. Dásamlega hallærislegt.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Íslenskt popp

Búinn að vera að hlusta á nokkrar íslenskar poppplötur á tónlist.is

Þær sem vert er að nefna: (ófagleg gagnrýni að vanda)

Nýja Sálarplatan, klárlega ekki þeirra besta verk en þeir standa nú bara alltaf fyrir sínu blessaðir og mörg fín lög á þessum disk og textarnir góðir eins og oftast. Sagt er að þeir leiti öðru fremur uppruna síns á þessum disk... ekki veit ég hvurn djöfulinn það þýðir nú. En mæli alveg með "Undir þínum áhrifum" og gef þeim 4 í einkunn.

Írafár gaf út samnefnda plötu. Ég gengst fúslega við því að kallast Írafár aðdáandi. Samstarf þeirra Vignis og Þorvalds bjarna skilar sér í virkilega góðum lögum sem gerir bandið tvímælalaust að besta poppbandi landsins. Ég hef verið nokkuð hrifinn af diskum þeirra hingað til en held svei mér þá að þetta sé sá besti. Ég held að allir sem eru núna að hugsa "piff... hlusta ekki á svona gelgjutónlist" ættu að gefa þessum disk séns og hlusta á hann einu sinni... þau eru nefnilega ekki ennþá að spila því að ég hef fingur því ég vil bara vera ég, vera ég sjálf.
5 í einkunn... ekkert svo langt frá sexunni!

æ... það er eitthvað við skítamóral sem gerir mig svo helvíti hressan! Ekki það að þetta sé eitthvað sem maður setur á fóninn þegar maður vill hlusta á gæðamúsík, heldur kunna þeir bara að gera lögin sín eitthvað svo skemmtileg og maður verður glaður og langar jafnvel til að sturta í sig kippu og fara á djammið :)
Neikvæður punktur að Einar Ágúst sé ekki lengur með þeim en ég gef "má ég sjá" samt glaður 4 í einkunn og set diskinn á í næsta partýi.

Bubbi stendur að sjálfsögðu undir væntingum og gefur ekki út eina leiðinlega plötu heldur tvær. Ég hef nú ekki verið mikið fyrir Bubba í gegnum tíðina (það hefur ekkert með fordóma mína gegn sköllóttum að gera) en hann hefur átt sína góðu spretti en hann sýnir undantekningalítið þá spretti ekki á þessum plötum, "fallegur dagur" er ein af fáum undantekningum á leiðinlegu og allt að því barnalegu gauli.
Splæsi nú samt á hann óverðskulduðum 2, einn í einkunn fyrir hverja plötu.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Myndir

Ég tók mig til og vann það þrekvirki að setja inn 764 myndir á myndasíðuna og kommenta á margar... sem er auðvitað allt of mikið af myndum og nær ógjörningur að komast yfir allt þetta magn.

En allavega, ykkur er velkomið að sjá það í myndum hvað á daga mína hefur drifið síðastliðna mánuði... og ef þið hafið e-ð skemmtilegt að segja þá er hægt að kommenta á myndirnar :)

Ætli það komi svo ekki bara noregsmyndir inn bráðlega... svei mér þá dugnaðurinn.

(þess má líka geta að þegar það kemur ... (þrír punktar) eftir fyrirsagnirnar á myndunum þá stendur eitthvað meira um þær. Svo ef það koma flottar myndir þá er hægt að smella á "Get original uploaded photo" og þá verður hún rosa stór og fín :)

Góða helgi

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Maður er með blogg já...

Er að hlaða inn milljón skrilljón myndum, ætti að vera tilbúið á morgun. Reyndar mest bara myndir af landslagi og byggingum og fólki sem þið þekkið ekki rassgat en það er ykkar vandamál ekki mitt.

Góðar stundir

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

jammm....

Lítið um blogg = lítið að frétta

Kannski helst að hlunkurinn dreif sig af stað og keypti sér kort í líkamsræktarstöð... svo er bara að vona að maður endist, geri ekki eins og Óskar Sturlu sem keypti sér kort í líkamsrækt, mætti svo u.þ.b. tvisvar sem gerði það að verkum að hver tími kostaði að meðaltali mörg þúsund kall. Mikill snillingur hann Óskar.
Ég keypti mér reyndar ekki kort í líkamsræktarstöð með fullt af fínum tækjum og tólum með innbyggðum einkaþjálfara, þremur skvass völlum, tveimur nuddpottum, salatbar Ágústu Johnson & Johnson í andyrinu, friends þættina á repeat á tuttugu sjónvarpsskjám, Eric Prydz tónlistina til að halda taktinum, og fullt af myndarlegum og vel vöxnum stúlkum á næsta æfingartæki. Onei, þetta er sko hard core, fékk mér kort í sal þar sem tækin eru hvorki með play né start-takka, hvað þá rauf til að stinga einkaþjálunarkorti í. Bara beisik tæki og svo frjáls lóð! Allir sem þarna æfa eru helmassaðir guttar (að sjálfsögðu fyrir utan mig) sem hafa líklega lítið gert síðust fim árin en að lyfta lóðum og þamba prótein (og öll hin kraftaefnin sem ég þekki ekki) drykki. Í tveggja milljóna vatta hátölurunum (sem virðast btw alltaf vera í botni) eru Rammstein og Rocky I, II og II soundtrack á repeat & shuffle. Já, þetta er alvöru... og niðurstaðan er sú að ég er helaumur í öllum líkamanum, harðsperrur dauðans... en þetta er gaman og ég þakka Matthíasi frænda fyrir góð ráð!

Annað sem vert er að segja frá... jú, haldiði að maður sé ekki byrjaður í hljómsveit. Svosem ekkert óvenjulegt við það nema kannski að ég spila á bassa í hljómsveitinni. Bandið varð náttúrlega helmingi lélegra eftir að ég byrjaði að spila með þeim enda töluvert langt frá því að hafa getið mér gott orð sem bassaleikari... en hvað um það, drengirnir sáu þarna gott efni, sem ég klárlega er og er stefnan tekin á að taka þátt í rokkkeppni 21. des. Það verður stuð! :) Ætla að vera búinn að æfa mig ofboðslega mikið þá, enda þurfum við bara að spila tvö lög þannig að það ætti alveg að reddast.

segjum það í bili