fimmtudagur, apríl 28, 2005

Fréttir af utanlandsferð...

Ég býst við að flestir sem þetta lesa vita að ég er á leiðinni eitthvað til úglanda í gegnum samtök sem heita AIESEC en svo skemmtilega vill til að ég var formaður þessara samtaka 2001-2002.
Fyrir þá sem ekki vita þá var planið að fara í starf til Asíu, S-Ameríku eða austur Evrópu, líklega eitthvað þróunarstarf.
Eftir að hafa skilað inn umsókn sem svo var sett í gagnagrunn með það í huga að koma mér saman við fyrirtæki/samtök sem henntar mér þá er staðan sú að ég er kominn í samband við AIESEC í Serbíu sem hafa komið umsókn minni til fyrirtækis þar í landi. Þetta fyrirtæki heitir Montecco INC. og myndi ég starfa í markaðsdeildinni hjá þeim en hlutverk mitt yrði eftirfarandi:

1) Marketing planning and research (weekly, monthly, quaterly).
2) Developing PR activities of a company or brand.
3) Developing Advertising campaign of a company or brand.
The main result/achievement expected is a developed complete PR and advertising campaign of company or brand approved by a real customer.


Ég vona að ég fái svar frá þeim sem fyrst... vonandi jákvætt, en ef það verður neikvætt þá er bara málið að finna eitthvað annað, mun að sjálfsögðu segja ykkur frá gangi mála.

Þá er það komið á hreint og enginn þarf að spurja mig að þessu í bili...

mánudagur, apríl 25, 2005

Ég er spegilmynd af þér...

Við þremenningarnir á myndinni brugðum undir okkur betri fætinum og hinum líka og skelltum okkur heim í Búðardal á laugardaginn. Tilefnið var ball með Sálinni. Ég hef aldrei komið í Búðardal áður, í raun hefur maður nánast ekkert komið í bæi sem ekki liggja við hringveginn. Þar af leiðandi hélt maður að sjálfsögðu að maður væri á leiðinni á hjara veraldar þar sem maður myndi ekki hitta neina nema lopapeysklædda molbúa og ungar heimasætur sem myndu bráðna þegar þrír ungir myndarlegir utanbæjarfolar kæmu á öðru hundraðinu á nýþvegna BMW´inum inn í bæinn.
Raunin varð nú önnur... ekki sá ég neinn í lopapeysu og ekki féllu stúlkurnar fyrir okkur, svo mikið er víst. En það sem verra var, nýþvegni bíllinn hans Óskars fékk í sig spark frá óprúttnum fávitum svo af hlaust tug- ef ekki hundruð þúsunda króna tjón. Ég vona að dreifing litlu ljótu lirfunnar á 100.000 heimili á næstu dögum eigi eftir að skila sér í ögn meiri umburðarlyndi en gengur og gerist í dag!
En að öðru leiti var þessi ferð og þetta ball alveg frábær, maður hitti fullt af skemmtilegu fólki og það þarf varla að taka það fram að Sálin var algjör snilld.

Það eru að sjálfsögðu komnar myndir frá helginni á myndasíðuna.

föstudagur, apríl 22, 2005

Sagan endurtekur sig?

Þá er duglegi ég búinn að gera myndaalbúm á netinu þar sem myndavélinn er nýji félaginn í djammhópnum. Þar mun semsagt allur sorinn birtast og að sjálfsögðu allt óritskoðað :)
Það eru semsagt komin 2 myndaalbúm, annað er frá síðustu helgi sem var bara nokkuð týpísk helgi, engin stórkostleg afrek þar, en hitt er frá því í fyrradag þegar ég ásamt nokkrum stelpum (jebb... alltaf einn af stelpunum) skelltum okkur í þáttinn hjá Hemma Gunn. Ég reyndi eftir fremsta megni að sitja sem lengst til hliðar þannig að ég sést vonandi ekki í sjónvarpinu, en þættirnir sem voru teknir upp í gær voru númer 39 og 40 (búið að taka upp 40 þætti á 4 vikum! góð keyrsla það). Eftir þáttinn var svo kíkt á djammið... Svo koma að sjálfsögðu fleiri myndir eftir helgi þar sem það stefnir allt í frábæra helgi! :)

Smá söguleg hugleiðing:

1978
# Páfinn dó
# Wales vann stóru slemmuna í ruðningi
# Liverpool tapaði úrslitaleiknum í deildarbikarnum fyrir liði sem síðan varð Englandsmeistari (Nottingham forest)
# Liverpool varð Evrópumeistari í knattspyrnu

2005
# Páfinn dó
# Wales vann stóru slemmuna í ruðningi
# Liverpool tapaði úrslitaleiknum í deildarbikarnum fyrir liði sem verður Englandsmeistari í vor (Chelsea)
# Liverpool verður Evrópumeistari í knattspyrnu???

og þar að auki:

1981
# Karl Bretaprins kvæntist
# Liverpool varð Evrópumeistari

2005
# Karl Bretaprins kvæntist
# Liverool verður Evrópumeistari???

Já... maður spyr sig! :)

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Gefðu þeim blóm

"Logi Bergmann og Inga Lind... Saman í badminton" -Hver getur staðist að kaupa blað sem hefur svona fyrirsagnir!?!? ég er allavega farinn út í búð að kaupa séð og heyrt!

Var að hlusta á þáttinn hjá Hemma Gunn á Bylgjunni á sunnudaginn en þar var Hörður Torfa í viðtali og hann spilaði líka nokkur lög. Hingað til hefur mér fundist Hörður Torfa hundleiðinlegur en það breyttis svolítið eftir að hafa hlustað á þennan þátt. Hann á nokkur helvíti fín lög en það var sérstaklega eitt sem mér fannst frábært en textinn í viðlaginu var á þessa leið:

-Gefðu þeim blóm.
-Gefa þeim blóm ?!
-Já, gefðu þeim blómavönd og rúsínupoka með hnetum.

Þetta lag flutti hann semsagt frábærlega þarna í þættinum, ekki veit ég hvort það sé jafn skemmtilegt á plötunni en ég ætla mér að komast að því og hvet ég sem flesta að tékka á þessu lagi, en eftir nánari eftirgrennslan komst ég að því að lagið heitir Karl R. Emba.
Talandi um Hemma Gunn... Ég ætla að gerast svo nördalegur að fara með Bibbu, Möttu og einhverjum fleirum á upptökur á "Það var lagið" á morgun, miðvikudag. Ég er nú bara soldið spenntur :)
Svo er bara næsta skref að fá að vera í salnum í "Fólk með Sirrý" en það er reyndar sýnt í beinni útsendingu og ég er ekki alveg tilbúinn í svo mikla prófraun. En í "Það var lagið" get ég alltaf bara staðið upp sagt "Hey! stopp... cut cut cut, ég var ekki alveg með rétta svipinn þarna þegar sýnt var skot af áhorfendum!" ... þannig að það er líklega fínt að byrja á þessum þætti áður en maður skellir sér á Sirrý.

Munið að kjósa í könnuninni ------->

Farinn að lulla... flísalagningar í fyrramálið

mánudagur, apríl 18, 2005

Sææævar byggir...

Veii... bara fjögurra daga vinnuvika framundan... sem skiptir reyndar bara ekki rassgat máli fyrir mig, jú fæ reyndar frí í vinnu á fimmtudagskvöldið.
Annars er ég ferlega duglegur þessa dagana að hjálpa Einari að endurinnrétta eldhúsið hjá sér... er bara orðinn nokkuð sjóaður í að skrúfa saman eldhúsinnréttingar, þótt ég segi sjálfur frá.
Síðasta helgi var mjög týpísk að öllu leiti nema því að ég var með nýju Sony DSC-P200 Cyber-shot® myndavélina mína meðferðis. Villi Harðar var svo góður að kaupa hana fyrir mig í ameríkuferð sinni. Hann gaf mér reyndar upp eitthvað vitlaust reikningsnúmer til að leggja inná... þýðir það ekki að ég slepp við að borga honum? hans mistök! :)
En þetta þýðir að ég verð að henda upp einhverri myndasíðu til að deila með ykkur myndunum af ykkur... geri það líklega í vikunni.
Svo var ég nú að velta fyrir mér hvort maður ætti ekki að henda upp einhverri getraun, svona í anda tilvitnanagetraunarinnar góðu... þarf að pæla aðeins betur í því (allar hugmyndir vel þegnar). Sem minnir mig á það, ég átti alltaf eftir að tilkynna opinberlega hver var tilvitnunarmeistari, það kemur að því. Þess má nú líka geta að ég er nýkrýndur lördagsquiz meistari á síðu Ólafs Arnars... þrefalt húrra fyrir mér... Húrra húrra hóraaaa....

Jæja... nóg af tilgangsleysisbloggi í bili. Farinn að byggja eldhúsinnréttingu.

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Liverpool í undanúrslit meistaradeildarinnar!

Maður er bara óstöðvandi í blogginu fyrst maður er byrjaður á annað borð. En í gær gerðist sá stórkostlegi atburður að Liverpool sló Juventus út úr meistaradeildinni með 0-0 jafntefli en fyrri leikurinn hafði farið 2-1 Liverpool í vil og er liðið þar af leiðandi komið í undanúrslit keppninnar.
Góðan árangur Liverpool í leiknum í gær má fyrst og fremst þakka frábærum varnarleik, en varnarmenn liðsins héldu leikmönnum Juventus algjörlega í skefjum. Góð innkoma Xabi Alonso í fjarveru Steven Gerrard var ómetanleg að ógleymdri frábærri stjórnun stjórans Rafael Benitez.
Þetta var stór dagur í sögu Liverpool, en núna er næsta verkefni að vinna Chelsea í undanúrslitum og svo annað hvort PSV eða Milan í úrslitum
Áfram Liverpool!!!

"Hvað eruð þið að gera í bænum?"

Ég held að allt dreifbýlispakk, eins og ég, sem býr í Reykjavík kannist við þær ferlega leiðinlegu aðstæður sem svo oft koma upp þegar maður er á röltinu í Kringlunni.
Nánast undantekningalaust hittir maður þá á sveitung sinn, í mínu tilfelli norðfirðing, en það vita jú allir að á svo litlum stað "þekkja" allir alla.
Það versta við þetta er að í flestum tilfellum er maður að hitta fólk sem maður, undir vejulegum kringumstæðum á röltinu á Norðfirði, myndi ekki heilsa, eða í mesta lagi að nikka kurteisislega. Nema hvað... þar sem viðkomandi er frá sama stað og maður sjálfur þá einhvernveginn sogast maður að þeim, eða þeir að manni þrátt fyrir að maður streitis á móti... og svo hefst samtalið.
-hann- Blessaður
-ég- Nei, sæll og blessaður, þú hér? (góð spurning snillingur)
-hann- Jájá, maður verður að kíkja í búðir með konunni (báðir hlægja tilgerðarlega)
Svo kemur spurningin óhjákvæmilega
-ég- Hvað er svo verið að gera í bænum?
-hann- Bara svona rétt að skreppa, kíkja í fermingu hjá frænku konunnar (eða bara eitthvað álíka vitlaust)
-ég- Jájá
Svo kemur næsta óhjákvæmilega spurning
-hann- Hvað segir þú, ertu ekki alltaf í skólanum?
Hvað ætti hann svosem annað að segja greyið, veit líklega ekkert um mig nema að ég er í reykjavík í skóla
-ég- Ha nei, ég kláraði nú síðasta vor skoh
-hann- Núnú, ertu að vinna þá
-ég- Ha já... eða nei eða sko...
Og þarna kemur ástæðan fyrir því að mér finnst þessar aðstæður sérstaklega leiðinlegar, þ.e.a.s. útskýringin á því hvað maður er að gera í lífinu... fyrir utan það er viðmælandanum öruglega skítsama, hann var bara að spurja að einhverju til að halda uppi samræðunum sem honum fannst öruglega jafn leiðinlegar og mér...
-ég- Ég var sko hjá Umferðarstofu frá útskrift fram að jólum og í aukavinnu í félagsmiðstöðinni. Svo eftir áramót þá ætlaði ég að taka mér smá tíma og skoða hvað var í boði þannig að ég var bara í félagsmiðstöðinni. Svo þegar svolítill tími var liðinn þá ákvað ég að sækja um að fara í vinnu erlendis þannig að ég beið með atvinnuleitina innanlands en var samt enn í félagsmiðstöðinni að sjálfsögðu. Nú er ég búinn að sækja um að komast út og er í þessum töluðu að skoða það sem í boði er en það er ýmislegt og ég þarf bara að velja, líklegast er að ég fari í þróunarstörf til Asíu, S-Ameríku eða Austur Evrópu. Ætli ég fari ekki út á tímabilinu maí til júlí og stefnan er að vera í svona hálft ár. Svo er nú planið að..... hvað ertu að gera?!?! ertu að geispa? nei ekki fara!!... hey! bíddu... ég var ekki búinn! komdu aftur!!! ég veit hvar þú átt heeeeiiiimaaaaaaa......

Þess má reyndar geta að ég lendi ekki lengur í þessum aðstæðum þar sem ég er orðinn býsna vel þjálfaður í því að ganga bara hratt og ákveðið framhjá fólki og segja ákveðið og frekar kuldalega "hæ!" og rjúka svo í burtu... svo fer ég reyndar mjög sjaldan í Kringluna nema þá til að fara í ríkið og ég get labbað þangað með lokuð augun, sem kemur sér mjög vel við svona aðstæður.

mánudagur, apríl 11, 2005

Nýtt upphaf?

Mér leiddist áðan og datt i hug að breyta aðeins útlitinu á blogginu mínu... og í kjölfarið af því er ég jafnvel að spá í að blogga svona annað slagið... þegar ég nenni. En það verður ekki núna því nú ætla ég að fara að horfa á Survivor. Bless í bili