mánudagur, nóvember 28, 2005

Dæmisaga úr nýjasta testamentinu (burra guðspjall)

Einu sinni fyrir nokkuð langa löngu var guð sem hét Guð. Honum þótti afskaplega vænt um skepnurnar sem hann hafði skapað fyrir ennþá lengra löngu og kölluðu sig manneskjur. Eitt helgarkvöldið sat Guð upp í himni sínum og horfði niður á sköpunarverk sitt, á manneskjugreyin sem höfðu tilbeðið hann dag og nótt í þúsundir ára ásamt því að færa honum fórnir sem kostuðu oftar en ekki mannslíf, ekki það að hann hafi þurft á þessum fórnum að halda, hann var jú guð og gat fengið allt sem hann vildi. En Guð er góður guð og veit að það er hugurinn sem gildir þegar kemur að fórnum og öðrum trúarathöfnum og nú skyldu skepnurnar verðlaunaðar fyrir dugnað sinn og trúrækni. Gjöf Guðs var að gera manninum kleift að finna upp og framleiða bjór og aðrar áfengisafurðir. Manneskjan var himinlifandi, aldrei áður höfðu partýin verið jafn skemmtileg og konurnar jafn auðveldar, jörðin, aðsetur manneskjunnar, var orðin paradís sem slóg aldingarðinum Eden ref fyrir rass.

Aldrei hafði mannkynið verið svo hamingjusamt, mjöðurinn flaut um allt og allir voru nett kenndir, alltaf. Þessi mikla sæla leiddi hins vegar til þess að fólk fór að leggja minni rækt við trú sína. Tíminn sem vanalega fór í morgunbænir fór í að staupa sig í rétta gírinn fyrir daginn, í staðin fyrir að fara með borðbæn þá fékk fólk sér fordrykk og hrunið var í það á kvöldbænartímum. Þetta gramdis Guði mjög í geði, ekki hefði honum grunað að elskulegu manneskjuverurnar sínar myndu breytast í þvílík skrímsli við að nota gjöfina sem hann hafði svo örlátlega gefið þeim. Eftir að hafa hugsað málið í dágóða stund ákvað Guð að taka til sinna ráða. Hann skipaði svo fyrir að því meira sem hver maður drekkur af miðinum hverju sinni því mun ömurlegra mun þeim manni líða daginn eftir. Þessi aðgerð hins reiða guðs leiddi til þess að áfengissjúkri manneskjunni leið ömurlega með tilheyrandi uppköstum og ógeði í kjölfar mikillar drykkju.

Í þynnkuveikindum sínum fór manneskjan að ákalla guð sinn í miklu mæli og hækkaði trúrækni hennar umtalsvert. Guð var mjög ánægður með þessa breytingu en fannst samt gríðarlega átakanlegt að horfa upp á skepnurnar sem hann elskaði svo mikið þjást svo gríðarlega því ekki voru manneskjugreyin nógu snjöll til að drekka minna af búsinu. Svo erfitt fannst Guði að horfa upp á þetta að það fór að bera á samviskubiti hjá honum. Þegar samviskubitið var farið að naga hinn almáttuga alvarlega þá ákvað hann að hann yrði að gera eitthvað til að lina þjáningar mannsins, en þó á þann hátt að trúræknin myndi ekki minnka mjög mikið. Nú voru góð ráð dýr. Eftir mikla umhugsun fékk hann snilldarhugmynd, hugmynd að gjöf til mannsins til að lina þjáningar hans. Guð gaf manneskjunni þynnkudrulluna.

Nú voru allir glaðir, maðurinn gat drukkið sig út úr kortinu og skemmt sér konunglega, vaknað svo daginn eftir og eytt töluverðum tíma í að líða ömurlega og ákalla guð sinn, taka svo þynnkudrulluna og líða töluvert betur á eftir... allir sáttir! Amen

úfffff.... þvílíka kjaftæðið
var b.t.w skrifað í átakanlegri þynnku

3 ummæli:

Bibba Rokk sagði...

Þetta er meistaraverk og á að vera gefið út :) snillingur

Nafnlaus sagði...

Var þetta skrifað fyrir Barða? ;)

Nafnlaus sagði...

eeee, ok en þarna... jám, þú segir nokkuð. Hefði meiru trú á að þú hafir verið fullur frekar en þunnur þegar þú skrifaðir þetta