mánudagur, ágúst 29, 2005

Sarajevo, part I of III

Myndir má stækka með því að smella á þær

Það er skrýtin tilfinning að koma í borg þar sem ekki eru liðin 10 ár frá því að þar voru háðir blóðugir bardagar í stríði sem kostaði yfir 200.000 manns lífið, mestmegnis fólk frá Bosníu. 10 ár... það er ekkert! Þegar Bó Hall stóð frammi fyrir Evrópu og söng Núna í eurovision söngvakeppninni (eitt af fjölmörgum 15 sætum Íslands) þá rigndi sprengjum yfir Bosníu.
Það er reyndar ekki að sjá að svo stutt sé síðan þarna var stríð, svo mikil hefur uppbyggingin verið, með mikilli þróunarhjálp vestrænna ríkja, og í raun mjög falleg borg sem ég myndi gjarnan vilja eyða meiri tíma í. Helstu ummerki stríðs eru einstaka byggingar sem ekki hafa verið gerðar upp... það hélt ég í það minnsta þar til ég var á leiðinni út úr borginni og spurði sakleysislega hvaða tilgangi öll götin, sem þekja nánast allar byggingar í bænum, þjónuðu. "Þau þjóna nú engum tilgangi, þetta eru skemmdir sem flísar ollu þegar þær þeyttust um allt þegar sprengjum var varpað á okkur"... Ég hafði ekki einu sinni tekið mynd af þessum götum þar sem mér datt ekki í hug að sprengjum hafi gjörsamlega rignt um alla borgina og ég áttaði mig á því að það var ekkert verið að ýkja þegar sagt var að Sarajevo, vetrarólympíuleikaborgin 1984, hafi nánast verið jöfnuð við jörðu í stríðinu.

Mistur lá yfir borginni þegar við gengum upp á einn hólinn til að skoða útsýnið en á fyrstu myndinni má sjá ágætlega hvernig landið liggur, en borgin er í raun umkringd fjöllum, eða öllu heldur hólum. Í stríðinu voru þessir "hólar" hersetnir af óvininum, serbum, og voru íbúar borgarinnar því innilokaðir og gátu sig hvergi hreyft.
Á einum þessara hóla, sem sést að hluta til lengst til hægri á fyrstu myndinni, lá leyniskytta. Ekki eru menn sammàla um hvort þarna hafi verið serbneskur hermaður eða rússneskur atvinnumaður en það skiptir ekki öllu. Leyniskytta þessi lá í skotgröf sinni og vakti yfir borginni alla daga og skaut á allt sem hreyfðist, mestmegnis á óbreytta borgara. Talið er að skyttan hafi drepið yfir 200 manns og sært ennþá fleiri, einn af þessum 200 var besti vinur Nedzad, stráksins sem stendur með okkur Vince á annari myndinni (í gallabuxunum). Það er erfitt að ímynda sér að ekki sé hægt að fara út á götu án þess að eiga hættu á að vera skotinn af leyniskyttu. Borgarbúar gerðu þó ýmsar ráðstafanir eins og að hengja stór tjöld um alla borg svo skyttan gæti ekki séð fólk sem nauðsynlega þurfti að fara út á götu, t.d. til þess að standa í röð eftir vatni og mat handa fjölskyldum sínum.

Maðurinn á þessari mynd heitir Slavisha og vinnur hjá sama fyrirtæki og ég. Hann er 31 árs gamall og er frá Bosníu, hann barðist fyrir þeirra hönd í stríðinu, tvítugur að aldri.
Hann var í hersveit sem samanstóð af 300 hermönnum, hann þurfti að horfa á flesta félaga sína vera drepna þar sem aðeins 10 af þessum 300 stóðu eftir lifandi að stríði loknu. Af hverju hann var einn af þeim heppnu veit ég ekki. Þriðja myndin er af einum af fjölmörgum kirkjugörðum þar sem hermenn sem létust í stríðinu liggja.
Hann sagði að vera þátttakandi í stríði væri hryllingur og ekkert líkt stríðsmyndunum sem við leigjum á vídjóleigunum, meðvitaður um að það er líklega sú mynd sem við "friðsældarfólkið" frá vestrænum ríkjum höfum af stríði. Mest allur tíminn fer í það að bíða og bíða... og bíða... og ekkert gerist og þá þarftu að halda áfram að bíða þangað til þú ert nánast dauður úr leiðindum og þá byrjar hryllingurinn og blóðsúthellingarnar og þú vildir óska að þú værir ennþá bara að bíða.
Honum leið greinilega illa þegar hann byrjar að tala um þetta, þannig að við létum þar við sitja.

5 ummæli:

Dillibossi Knúdsen sagði...

vá þvílík upplifun að vera þarna og geta í alvörunni talað við gaura á okkar aldri um stríð sem þeir börðust í... maður sér alltaf bara einhverja gamla gaura fyrir sér segjandi hetjusögur og þá virkar þetta allt eitthvað svo fjarrænt...ekki satt?

Nafnlaus sagði...

Djísesssss....þetta hljómar e-ð svo rosalegt þegar maður fær þetta beint frá þér...fréttirnar eru einmitt alltaf bara fréttir...maður lifir sig ekki beint inn í þær. Þú ættir allavega að vera búinn að troða ágætri reynslu í reynslubrunninn!

Sævar Jökull Solheim sagði...

júbb Díana, það er ferlega skrítið að tala við jafnaldra sem hafa drepið menn eða horft upp á vini sina og fjölskyldu vera slátrað.
Maður getur aldrei ímyndað sér hvernig þessu fólki líður bak við brosið og vingjarnleikann en jú, maður er reynslunni ríkari.

Bibba Rokk sagði...

Ég er orðlaus - það gerist aldrei

Nafnlaus sagði...

Vá það hefur verið hrikalegt að upplifa þetta og heyra einhvern segja frá svona, það er óhætt að segja að það hafi farið hrollur um mann að lesa þetta...
kv.Stína